Hluti kröfuhafa VBS-fjárfestingarbanka, sem tekinn var til slitameðferðar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl sl., er óánægður með að VBS hafi fengið að starfa í næstum eitt ár eftir að ljóst var að bankinn gat aldrei staðið við skuldbindingar sínar. Telur hluti þeirra sem er í kröfuhafahópnum að þessi langi tími sem leið þangað til bankinn var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu (FME) og í kjölfarið tekinn í slitameðferð hafi leitt til þess að kröfuhafar hafi orðið fyrir óþarflega miklum skaða, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Hróbjartur Jónatansson hrl., formaður slitastjórnar VBS, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í gær að endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young væri nú að gera fjárhagslega úttekt á bankanum. „Eftir að hún liggur fyrir verður gripið til aðgerða eins og þurfa þykir til þess að tryggja hag kröfuhafa.“ Hróbjartur vildi ekki tjá sig um hvort bankinn hefði starfað of lengi á veikum grunni. „En það er þó ljóst að bankinn var í verulegum vandræðum og átti ekki fyrir launum þegar hann var tekinn yfir,“ segir Hróbjartur.

Slæm staða hálfu ári fyrr

Samkvæmt upplýsingum frá FME var litið svo á að VBS hefði formlega verið með nægilega trausta eiginfjárstöðu, þ.e. yfir 8% lágmarkinu lögum samkvæmt. Viðskiptablaðið sendi eftirlitinu fyrirspurn um það hvort það hefði haft upplýsingar um að bankinn hefði haft litlar sem engar tekjur í samanburði við skuldbindingar hans, hálfu ári fyrir fall bankans. Þau svör fengust að FME gæti ekki „vegna laga um trúnað við eftirlitsskylda aðila [...] brugðist við þeim hluta spurningarinnar sem beinist að tekjum VBS“.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, frá 7. apríl sl., segir að fyrir hafi legið skýrsla um að bankinn uppfyllti ekki eiginfjárkröfur í ágúst 2009. Orðrétt segir í úrskurðinum: „Í byrjun ágúst 2009 hafi skýrslu verið skilað um fjárhagslega könnun á tilteknum þáttum í efnahagsreikningi og starfsemi VBS. Þá þegar hafi legið fyrir að bankinn uppfyllti ekki eiginfjárkröfur eða lausafjárkröfur sem gerðar séu til fjármálafyrirtækja, sbr. X. kafla laga um fjármálafyrirtæki nr. 16/2002.“

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.