Ekkert bendir til þess að hlutabréfamarkaðurinn innanlands sé yfirverðlagður, að mati Greiningar Íslandsbanka. Í Morgunkorni deildarinnar er fjallað um fjárfestingar lífeyrissjóðanna og fjárfestingarþörf þeirra á ári hverju. Þar kemur m.a. fram að lífeyrissjóðirnir eigi 31% hlut í eigin nafni í félögum í Kauphöllinni en markaðsverðmæti hlutanna nemur um 124 milljörðum króna. Tekið er fram að þeir eigi óbeint meiri hlut, s.s. í gegnum sjóði á borð við Framtakssjóðinn.

Í Morgunkorninu segir jafnframt að leiddar hafi verið líkur að því að ákveðinn eftirspurnarþrýstingur sé á hlutabréfamarkaði þar sem lífeyrissjóðir, fjárfestingasjóðir og tryggingafélög ásamt fleirum þurfa að sækja ávöxtun á litlum lokuðum markaði.

Í Morgunkorninu segir orðrétt:

„Ætla má að þessi eftirspurn þrýsti ávöxtunarkröfu markaðarins til hlutabréfa niður og félög verði þá hugsanlega dýrari en eðlilegt væri til lengri tíma litið. Ein aðferð til að meta verðlagningu markaðarins er að bera hana saman við verðlagningu erlendis. Athugun á verðmatskennitölum bendir ekki til þess að markaðurinn í heild sé almennt yfirverðlagður, verðlagning ákveðinna félaga víkur þó frá verðlagningu breiðs samanburðarhóps. Þess ber að geta að skoðanir manna eru mismunandi um notkun samanburðarhóps og annað úrtak gæti leitt af sér aðra niðurstöðu.“