Nýtt verðmat Greiningardeildar Landsbankans á Mosaic gefur verðmatsgengið 17,9 og 12 mánaða vænt verð 20,2. Lokagengi bréfa félagsins í gær var 17,2, en bréf félagsins hækkuðu um 5.5% á föstudag í kjölfar frétta af tilboðinu. Eins og fram hefur komið er ekki ljóst hvort af formlegu tilboði verði eða á hvaða gengi. Þeir telja þó að tilboðsgengið 17,5 (7% álag á lokagengi bréfanna þann 3. maí) endurspegli ekki að fullu virði félagsins.

Greiningardeildin mælir með að fjárfestar kaupi bréf félagsins og yfirvogi þau í vel dreifðu eignasafni sem tekur mið af íslenska markaðnum.

Mosaic birti uppgjör fyrir 4. ársfjórðung þann 26. apríl síðastliðinn. Góð jólasala bjargaði því sem stefndi í að verða slakur fjórðungur, en hagnaður var þó talsvert undir væntingum eins og greiningardeildin bendir á. Skýrist munurinn að stærstum hluta af umtalsvert hærri fjármagnskostnaði og afskriftum en við vorum að reikna með.

Mosaic sendi frá sér fréttatilkynningu síðastliðinn föstudag þar sem fram kemur að Baugur hafi fyrir hönd Newco, nýs félags í eigu Baugs og samstarfsaðila þeirra, gert óskuldbindandi yfirtökutilboð í allt hlutafé Mosaic á genginu 17,5. Viðræður eru enn á frumstigi og ekki liggur fyrir hvort formlegt tilboð verði lagt fram, og þá á hvaða gengi.