Gangi allt eftir gætu 5 til 15 manns unnið í fullri vinnu við gerð teiknimynda um ævintýri tuskudýranna Flopalongs. Teiknimyndagerðarmaðurinn Þröstur Bragason safnar nú fyrir gerð fyrstu teiknimyndarinnar um dýrin á fjáröflunarsíðunni Karolina Fund .

„Ég er búinn að vera einn í þessu ásamt öðrum verkefnum en er búinn að hafa samband við fólk innan mismunandi greina upp á framtíðina. Það er nóg til af hæfileikaríku fólki hér, bæði Íslendingar og aðfluttir,“ segir hann og bætir við að planið sé að fjölga fólki eftir því sem fjármagn leyfi.

Hleypur á ströndinni í Iwo Jima

Þröstur hefur sjálfur lengi unnið við teiknimyndagerð. Hann ólst upp við að horfa á Star Wars, He-Man og Transformers og telur hann það hafa valdið því að hann valdi sér teiknimyndagerð sem framtíðarstarf. Þresti er annt um umhverfið og hann sér t.d. ekki bráðnun íshellnanna sem sérstakt viðskiptatækifæri heldur frekar sem viðvörunarljós. Hann hefur unnið hjá Latabæ, CCP og hefur komið að mörgum mismunandi auglýsinga- og upplýsingaverkefnum, s.s. áramótaauglýsingu Icelandair og DAIM. Ef vel er að gáð sést hann líka hlaupa um á ströndum Iwo Jima í myndinni Flags of our Fathers. Þröstur stundar fjallahjólreiðar af miklu kappi og hefur m.a. keppt í cyclocross áhugamanna keppnum.

Fyrsta myndin verður stuttmynd, allt að 6 mínútur ef vel tekst til. Gangi allt upp gætu sjónvarpsþættir um dýrin litið dagsins ljós. Stuttmyndin um Flopalongs byggir á tuskudýrum sem John Robert Greene, kunningi Þrastar í Bandaríkjunum setti á markað fyrir nokkru. Fyrirmyndir dýranna eru í útrýmingarhættu. Ef af verður mun hluti af tekjum af þáttagerðinni renna til dýraverndarsamtaka.

Þröstur leitar eftir 5.000 evrum til verkefnisins, jafnvirði tæpra 856 þúsund króna. Nú er búið að safna tæpum 2.400 evrum sem jafngildir 47% af fjármögnun verkefnisins.

Hér má sjá hvernig tuskudýrin líta út.

Tuskudýrin eins og þau líta út á mynd.
Tuskudýrin eins og þau líta út á mynd.