Gengi króna mun halda áfram að hækka og muni haldast sterk fram á haust en gefi þá eftir nokkuð snögglega, að mati greiningardeildar Glitnis, en krónan hefur hækkað um tæp 13% það sem af er ári.

?Kauptækifæri myndast á gjaldeyrismarkaði þegar gengisvísitala íslensku krónunnar nær lágmarki í 110, evran fer í 81 krónur og dollarinn í 60 krónur. Reikna má með því að þetta gerist á allra næstu vikum. Nokkrar líkur eru á að vísitalan fari enn neðar og að erlendur gjaldeyrir verði þar með enn ódýrari. Við teljum að ef af því verður muni það verða skammvinnt en í leiðinni gott tækifæri,? segir greiningardeildin.

Hún segir mikil bjartsýni um efnahagsframvindu styðji gengi krónu. ?Seðlabankinn boðar áframhaldandi strangt peningalegt aðhald til að bregðast við þenslueinkennum í þjóðarbúskapnum og væntingar eru um að munur innlendra og erlendra skammtímavaxta haldist áfram hár,? segir greiningardeildin.

Hröð lækkun gengis krónunnar er ekki óalgeng eftir styrkingartímabil líku, að sögn greiningardeildarinnar, sem rifjar upp að á vormánuðum síðasta árs lækkaði gengið um ríflega 16% á tveimur mánuðum, eftir styrkingarferli.

Greiningardeildin telur hættu á yfirskoti. ?Við gerum ráð fyrir að gengisvísitalan fari tímabundið yfir 130 stig um mitt næsta ár, evran í 97 krónur og að dollarinn fari hæst í 72 krónur Við teljum að gengi krónu hækki nokkuð á ný á seinni helmingi næsta árs og að hún verði nálægt 127 í lok næsta árs,? segir hún.