Gengi krónu mun lækka þegar horft er til næsta árs, að mati greiningardeildar Glitnis. Telur hún að gengisvísitala í 130 stigum stuðli að jafnvægi í hagkerfinu en þá væri dollarinn í um 72 krónum og evran í 95 krónum. ?Á þeim slóðum teljum við að gengi krónunnar standi í lok næsta árs,? segir greiningardeildin.

Hún segir að mikið ójafnvægi hagkerfisins kalli á frekari gengisaðlögun. ?Vænta má þess að munur á innlendum og erlendum skammtímavöxtum dragist saman samhliða stýrivaxtalækkunum Seðlabankans á næstu misserum.  Þá mun draga úr vilja fjárfesta og annarra til að taka stöðu með krónunni.

Óvissa spárinnar er til beggja átta en í ljósi aðstæðna virðist hún vega þyngra til frekari lækkunar gengi krónunnar þegar horft er lengra fram á veginn. Það gengi krónu sem stuðlar að jafnvægi í hagkerfinu til lengdar er að okkar mati nálægt núverandi gengi,? segir greiningardeildin.

Blanda sem gæti á kallað fram meiri gengislækkun

?Grunnur innlendur gjaldeyrismarkaður, mikið ójafnvægi hagkerfisins, stórar stöður erlendra aðila með krónunni og miklar erlendar skuldir Íslendinga er blanda sem gæti á skömmum tíma kallað fram talsvert meiri gengislækkun krónunnar. Áhættusækni alþjóðlegra fjárfesta hefur verið mikil og gengi krónunnar sem og annarra hávaxtamynta hefur notið góðs af því,? segir greiningardeildin.

Hún telur að erlendir aðilar hafi æ meira um gengisþróun krónu að segja og birtist sú þróun meðal annars í sterku sambandi krónubréfaútgáfu, áhættuálags á íslensk fjármálafyrirtæki og krónu.

?Ef viðsnúningur í viðmóti þessara fjárfesta á sér stað er eins víst að flóttinn verði fyrstur frá litlu hagkerfi þar sem dýpt gjaldeyrismarkaðarins er lítil. Traustar stoðir efnahagslífsins ásamt því að gengi krónunnar virðist um þessar mundir, ólíkt því sem var fyrir ári, í grennd við jafnvægi ætti að geta snúið slíkri gengislækkun við á tiltölulega skömmum tíma og án umtalsverðs skaða fyrir fjármálalífið eða hagkerfið í heild,? segir greiningardeildin.

Hún segir að staða gengis krónunnar nálægt því gildi sem stuðlar að jafnvægi hagkerfisins til lengri tíma, mikill vaxtamunur við útlönd ásamt því að framundan virðist mjúk lending hagkerfisins með skammvinnu skeiði stöðnunar gefur ákveðnar líkur á því að krónan muni ekki lækka á næsta ári heldur þvert á móti hækka.

?Slík þróun yrði nokkuð úr takti við þá aðlögun sem hagkerfið þarfnast að loknu yfirstandandi þensluskeiði og sérstaklega í ljósi mikils ójafnvægis. Gengishækkun krónunnar er hins vegar á engan hátt hægt að útiloka.

Stöðutaka í krónu álitlegur kostur fyrir áhættufjárfesta

Fyrir þá sem eru tilbúnir að taka talsverða áhættu er stöðutaka með krónu álitlegur kostur í ljósi mikils vaxtamunar, stöðu krónunnar og hagkerfisins. Sérstaklega getur tækifæri falist í því ef krónan myndi lækka enn frekar til skemmri tíma. Stöðutaka þessi er hins vegar mjög áhættusöm vegna þess mikla ójafnvægis sem hagkerfið er í,? segir greiningardeildin.