Stórir gjalddagar krónubréfa eru framundan nú í janúarmánuði en alls falla krónubréf að nafnvirði 65 milljarða króna, auk vaxta, á gjalddaga innan mánaðarins, að sögn greiningardeildar Glitnis.

Fyrsti gjalddaginn verður á miðvikudaginn í þessari viku þegar þriggja milljarða útgáfa Evrópska fjárfestingabankans fellur á gjaldaga. Alls gjaldfalla átta útgáfur til viðbótar áður en mánuðurinn er allur en stærsti einstaki gjalddaginn verður þann 28.janúar þegar 45 milljarða króna útgáfa hollenska bankans Rabobank fellur á gjalddaga.

Krónan róleg

“Þrátt fyrir að um stórar upphæðir er að ræða teljum við að gjalddagarnir nú í janúar komi ekki til með að hafa teljandi áhrif á krónuna. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi hefur talsverðum hluta krónubréfanna sem falla á gjalddaga nú þegar verið framlengt með nýrri útgáfu. Nú fyrir helgi gaf Rabobank út krónubréf fyrir 30 milljarða króna sem virðist vera framlenging á stórum hluta af 45 milljarða króna útgáfu hollenska bankans sem fellur á gjalddaga þann 28. janúar næstkomandi.

Þá sýnir reynsla okkar af krónubréfum að áhrif stórra gjalddaga eru takmörkuð. Í september síðastliðnum féllu rúmlega 80 milljarða króna á gjalddaga án mikilla áhrifa á krónuna, þrátt fyrir að útgáfur undangenginna vikna væru ekki nægar til að framlengja öllum þeim stöðum. Loks koma stórir gjalddagar af þessu tagi gjaldeyrismarkaðinum ekki á óvart sem vissulega takmarkar áhrif þeirra,” segir greiningardeildin.

Krónubréf tiltölulega nýr þáttur í hagkerfinu

Engu að síður, að sögn greiningardeildarinnar, eru krónubréfin enn tiltölulega nýr þáttur í íslensku hagkerfi og því forvitnilegt að fylgjast með framvindu mála í tengslum við yfirvofandi gjalddaga. “Við teljum ekki ólíklegt að fleiri útgáfur líti dagsins ljós nú í janúar sem ætlað er að mæta þeim gjalddögunum sem framundan eru.”