Þegar horft er til framtíðar ættu bankar og eftirlitsstofnanir að beina sjónum sínum einkum að útlánaáhættu. Útlán vaxa enn mjög hratt og þótt hlutfall vanskila sé enn lágt getur hraður útlánavöxtur verið vísbending um framtíðarútlanatap. Þetta kom fram á fundi sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fundum með fulltrúum stjórnvalda og atvinnulífsins en sendinefndin hefur verið hér síðustu daga. Almennt er umsögn nefndarinnar um íslenskt viðskiptalíf nokkuð jákvæð.

Í áliti nefndarinnar kemur fram að fylgjast þarf vel með lánareglum og gæðum trygginga. Auk þess gæti bönkum stafað óbein hætta af ört vaxandi erlendum lánum sínum til heimila, þar sem heimili sem ekki eru varin gegn gengisbreytingum gætu vanmetið áhrif þeirra á greiðslubyrði sína. Umbætur vegna Íbúðalánasjóðs myndi einnig bæta verðlagningu á áhættu á lánamarkaði segir nefndin.

Álagspróf sem gerð eru af Fjármálaeftirlitinu gefa til kynna að bankar hafi nægilega styrka eiginfjárstöðu til þess að standast samspil óvenjumikilla lána- og markaðsskella. Slík próf geta þó vanmetið óbein áhrif slíkra áfalla. Því ber að halda á áfram að endurbæta álagspróf. Frekari efling Fjármálaeftirlitsins er fagnaðarefni í ljósi mikils vaxtar fjármálageirans. Jafnframt ber að fagna áherslu stjórnvalda á samstarf við stjórnvöld í öðrum löndum um eftirlit og viðbúnað.