Að sögn Jóns Þórissonar, framkvæmdastjóra VBS fjárfestingabanka hf., er hann bjartsýn á að bankinn nái að uppfylla kröfur Seðlabankans fyrir frekari tryggingum vegna endurhverfra viðskipta bankans.

Að sögn Jóns var í samningi VBS fjárfestingabanka við Landsbankann skuldajöfnunarákvæði sem þeir hafa nú nýtt sér. ,,Þar sem við skuldum Landsbankanum hærri fjárhæð en sem nemur andvirði þessara viðskipta höfum við krafist skuldajöfnunar og hún er að fara í gegn. Það mál er því væntanlega úr sögunni enda komin viðurkenning á því,” sagði Jón en þessari skuldajöfnun er beint að skilanefnd Landsbankans.

VBS fjárfestingabanki var með annars konar samning við Kaupþing sem laut að því að þeir lánuðu VBS bréf sem Kaupþing var útgefandi að. VBS lagði fram reiðufjártryggingu á móti að stærstu leyti ásamt skráðum víxli á VBS. Að sögn Jóns var samningurinn við Kaupþing þannig að hann var uppsegjanlegur með dagsfyrirvara. Honum var sagt strax upp um leið og óskað var eftir afhendingu reiðufjártryggingar við afhendingu skuldabréfsins. ,,Við eigum bara von á því að það gangi allt eftir enda höfum við stutt það með lögfræðiáliti sem við höfum sent þeim. Við höfum því ekki trú á að við þurfum að leggja fram neinar viðbótartryggingar,” sagði Jón.

Þegar Seðlabankinn lagði fram kröfu sína í síðustu viku sagði hann að undirliggjandi bréf yrðu metin að hálfvirði fyrir tryggingu sinni. VBS fjárfestingabanki var annars vegar með 15 milljarða króna tryggingu gagnvart Landsbanka og nálega 10 milljarða á Kaupþing. Það sem bankinn þurfti að standa skil á nam því 12,5 milljarði króna. ,,Það kemur ekki til þess því við náum að vinna að þessu með öðrum hætti. Ég hef enga trú á öðru en að þetta gangi upp” sagði Jón.