Gagnrýnivert er hvernig spilað var á viðkvæmar tilfinningar landsmanna eftir hrun, alið á hatri, hefndarhug og illsku í garð þeirra sem taldir voru ábyrgir fyrir því og mikil gróska í leitinni að sökudólgum hrunsins, að mati Helga Magnússonar, fyrrverandi formanns stjórnar Samtaka iðnaðarins og formanns stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Helgi hefur tekið saman bók með greinum og ræðum sínum á árunum 2007 til 2013. Bókin heitir: Hvað sagði ég?

Í formála bókarinnar skrifar Helgi:

„Fimm árum eftir hrun er staða Íslendinga þannig að við erum með ónýtan gjaldmiðil, höfum hætt viðræðum við ESB um raunhæfar lausnir á gjaldmiðlavanda þjóðarinnar, enn eru gjaldeyrishöft, kaupmáttur er veikur, atvinnuleysi er áfram tilfinnanlegt, framleiðni er lág. Við höfum misst þúsundir manna úr landi vegna tvinnu, tugir þúsunda heima fást við skuldavanda og þúsundir fyrirtækja eru enn í skuldakreppu eða hafa hreinlega horfið af sjónarsviðinu. Þröngsýni gætir gagnvart erlendri fjárfestingu og erlendum þjóðum eins og afstaða margra áhrifamanna til Evrópumála ber vott um. Það veit ekki á gott ef menn eru á móti framtíðinni.“

Hann telur enn vera von og þjóðina vænst betri tíma. Hann telur svo vera: Íslendingar séu ríkir af auðlindum og hér búa vel menntað, duglegt og öflugt fólk. Þá eigum við hreint vatn, mat, orku og landrými. Einmitt það sé það sem skorti mest í heiminum.

„Við erum aum þjóð ef okkur tekst ekki að nýta þessi gæði öllum landsmanna til heilla.“