Bæta þarf verklag og auka kröfur við gerð ívilnunarsamninga um nýfjárfestingar, mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og útgáfu starfsleyfa. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri úttekt Ríkisendurskoðunar sem ber heitið: Kísilverksmiðja Sameinaðs Sílikons hf. – Aðkoma og eftirlit stjórnvalda, en hún var unnin að beiðni Alþingis.

Í skýrslunni er alls sjö ábendingum beint til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og Vinnueftirlits ríkisins.

Mikilvægt er að stofnanir ríkisins sem koma að útgáfu starfsleyfa og gerð ívilnunarsamninga geti sannreynt getu þeirra sem sækj­ast eftir því að starfrækja meng­andi iðn­að til að uppfylla skilyrði slíks rekstrar og sanngildi þeirra upplýsinga sem þeir leggja fram.

Ríkisendurskoðun telur brýnt að umhverfis- og auðlindaráðuneyti kanni, í sam­starfi við Umhverfisstofnun og önnur stjórn­völd, hvort herða þurfi eða skýra kröf­ur við útgáfu starfsleyfa vegna starf­semi sem getur haft mengun í för með sér.