Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri, naut ekki réttlátrar málsmeðferðar þegar hann var dæmdur fyrir brot á reglum um innherjaviðskipti eftir bankahrunið. Þetta er mat Eiríks Elís Þorlákssonar hæstaréttarlögmanns og lektors við Háskólann í Reykjavík.

Í dómi Hæstaréttar var Baldur talinn hafa hagnýtt sér upplýsingar sem hann bjó yfir sem fulltrúi í nefnd ríkisstjórnarinnar um fjármálastöðugleika þegar hann seldi hlutabréf í Landsbankanum i aðdraganda að falli bankans. Baldur hlaut tveggja ára fangelsisdóm.

Eiríkur Elís skrifar um málið í Úlfljót, tímarit laganema. Hann segir að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Baldurs hafi verið brotið gegn 180. grein laga um meðferð sakamála þar sem segir að ekki megi dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá sem lýst er í ákæru.

Eiríkur Elís segir að sjaldgæft er að það komi til skoðunar hvort Hæstiréttur hafi farið í dómsúrlausnum sínum í bága við ákvæðið. Fremur komi til kasta Hæstaréttar að meta hvort héraðsdómur hafi farið út fyrir ákæru í dómsúrlausnum. Í umræddu máli komi þó til skoðunar hvort Hæstiréttur hafi dæmt Baldur fyrir annað en það sem greinir um í ákærunni gegn honum.

Það sé niðurstaða sín að það hafi ekki samræmst áðurgreindu lagaákvæði þegar Hæstiréttur dæmdi Baldur sem tímabundinn innherja, enda hafi hann verið ákærður sem annar innherji og vörnum var ekki komið að hvað þetta atriði varðar. Þetta hafi verulega efnislega þýðingu í málinu.

Baldur Guðlaugsson hefur kært dóm Hæstaréttar Íslands til Mannréttindadómstóls Evrópu.