Sigurður Einarsson, sem dæmdur var í fangelsi fyrir þátt sinn í Al-Thani málinu svokallaða, segir að dómsmorð hafi verið framið í Hæstarétti. Að hans mati var illa staðið að málaferlum í Hæstarétti, þar sem hann hlaut fjögurra ára fangelsisvist. Þetta segir Sigurður í aðsendri grein á Vísi.

Grein Sigurðar er svar við þýddri grein eftir Marc Fleurbaey, prófessor í hagfræði við Princeton háskóla, þar sem hann snertir meðal annars á því að „stjórnendur bankastofnana [hafi verið] kallaðir til ábyrgðar vegna þess sem gerðist árið 2008,” en Sigurður segir sárt að horfa upp á virðulegan prófessor fagna því að hópur manna hafi verið dæmdur í fangelsi.

Sigurði finnst þrennt í dómi sínum sérlega ábótavant. Í fyrsta lagi að áfrýjun sakfellingar frá héraðsdómi til Hæstaréttar hafi leitt til þess að nýr dómur ótengdur þeim fyrri var látinn falla. Í öðru lagi telur hann óskiljanlegt að hafa verið sýknaður af umboðssvikum en dæmdur fyrir hlutdeild í umboðssvikum, og í þriðja lagi telur hann að ekki nægar sannanir hafi verið til staðar til þess að réttlæta dóminn.

Sigurður endar grein sína á því að segja að sér finnist að umræðan einkennist af því að þeir bankamenn sem hafa verið kærðir eigi allt vont skilið:

Mér finnst þetta meinbugir á dómi Hæstaréttar. Ég heyri fáa sem um dóminn fjalla á Íslandi velta þessum þáttum fyrir sér. Mér finnst það alvarlegt mál. Mér finnst umræðan sem fyrr einkennast af því að þessir menn, sem vissulega voru flestir bankamenn, eigi allt vont skilið.