Chris Wright forstjóri Liberty Energy, sem er næst stærsti framleiðandi Bandaríkjanna á olíu og gasi með bergbroti, segir að engin orkuskipti séu framundan. Hann telur að niðurgreiðsla á framleiðslu vind- og sólarorku muni einungis hækka orkuverð. Þetta kemur fram í grein Bloomberg.

„Það er verið að fjárfesta miklum fjármunum í nýja framleiðslutækni, sem er frábært, en það eru ekki orkuskipti. Eftir þrjá áratugi mun mikill meirihluti af orku áfram koma frá kolvetni.“

Ummæli Wright eru í mikilli mótsögn við þróunina á undanförnum árum, að því er kemur fram í grein Bloomberg. Þannig hefur hlutfall endurnýjanlegrar raforku í Bandaríkjunum meira en tvöfaldast á undanförnum tveimur áratugum.

Auk þess er búist við því að sala á tengibílum verði um 23% af heildarsölu nýrra fólksbíla á heimsvísu árið 2025. Til samanburðar var hlutfallið 10% í fyrra samkvæmt gögnum Bloomberg.