S. Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar í Reykjavík, segir í samtali við RÚV að hann myndi fagna því ef Heiða Kristín Helgadóttir myndi snúa aftur í stjórnmálin. Heiða Kristín, sem er annar af stofnendum Bjartrar framtíðar, greindi frá því að hún hyggðist ekki taka sæti á þingi ef Guðmundur Steingrímsson héldi áfram sem formaður flokksins.

Björt framtíð er að ganga í gegnum erfiða tíma, en flokkurinn kemur illa út í skoðanakönnunum og nú virðist ósætti ríkja meðal forystu flokksins. Björn Blöndal segir að Guðmundur verði að hugsa sinn gang.

„Ég held að það sé eðlilegt að hann hugsi sína stöðu alvarlega og flokkurinn líka - hvert hann vill stefna og hvort hann ætlar að verða eitthvað afl í þessu landi áfram,“ segir Björn í samtali við RÚV.

Heiða Kristín lýsti því yfir fyrr um helgina að hún væri opin fyrir því að taka við formennsku Bjartrar framtíðar af Guðmundi.