Lífeyrissjóðirnir þurfa að bregðast við þróun um aukinn lífaldur landsmanna með því að skerða réttindi, hækka lífeyrisaldur eða hækka iðgjöld. Þetta kemur fram í grein Björns Z. Ásgrímssonar, sérfræðings á greiningarsviði Fjármálaeftirlitsins, í Fjármálum, vefriti FME. Hann tekur fram að einnig sé hægt að bregðast við þessari þróun með samþættingu þessara aðgerða.

„Skerðing réttinda mun ekki verða vinsæl ákvörðun en hjá henni verður ekki komist á næstu árum ef ekkert verður að gert,“ segir í grein Björns. „Þessi aðgerð mun og auka álag á almannatryggingar. Það má telja eðlileg viðbrögð að hækka lífeyrisaldur um 2-4 ár í þrepum og gera lífeyristöku sveigjanlegri. Hækkun iðgjalda gæti einnig verið skynsamleg aðgerð bæði vegna hækkandi lífaldurs og til að ná fram markmiðum um lífeyrisgreiðslur sem sjóðirnir stefna að sjóðfélögum til handa.“

Björn segir að einn áhrifamesti þátturinn við mat á skuldbindingum lífeyrissjóðanna séu forsendur um lífslíkur. Samkvæmt reglugerð eru þær unnar af Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga og byggja á gögnum frá Hagstofunni um dánartíðni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .