Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, telur að velvild í garð Costco megi ekki verða til þess að stofnanir beiti regluverki íslensk markaðar með einhverjum öðrum hætti gagnvart fyrirtækinu en innlendum keppinautum. Þetta kemur fram í pistli Ólafs sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Hann bendir á að nýlega hafi ekki farið eftir reglum um merkingar á vörum. „Félag atvinnurekenda hefur bent á að þær reglur séu of stífar – en það er grundvallaratriði að eftirlitsstofnanir sjái til þess að gildandi regluverk gangi yfir alla. Krafa um íslenzkar merkingar á hreinsiefnum getur til dæmis hækkað verð þeirra um 15- 30%. Sá sem kemst upp með að fylgja ekki reglunum stendur augljóslega sterkar í samkeppni við þann sem fylgir þeim í hvívetna,“ segir í pistli Ólafs.

Hvenær á að skilgreina Costco sem markaðsráðandi?

Ólafur veltir enn fremur upp áleitinni spurningu fyrir samkeppnisyfirvöld, þ.e. hvort og hvenær skilgreina eigi Costco sem markaðsráðandi í krafti gífurlegs fjárhagslegs styrks á alþjóðavísu. „Það blasir við að Costco selur ýmsar vörur undir kostnaðarverði, sem markaðsráðandi fyrirtækjum er óheimilt að gera,“ skrifar hann.

Að lokum skrifar Ólafur: „Costco-áhrifin eru góð, en það er lykilatriði að allir spili eftir sömu reglum. Svo er alltaf góð hugmynd að breyta slæmum reglum.“