„Það er reynslan í minni ráðgjöf að áhugi á sykruðu morgunkorni eins og Cocoa Puffs og Trixi og Honey Nut Cheeriosi  fer minnkandi ,“ segir Steinar B. Aðalbjörnsson næringarfræðingur.

Viðskiptablaðið greindi í gær frá frétt CNBC um að sala á morgunkorni vestanhafs fer minnkandi. Það á bæði við um General Mills, sem framleiðir Cheerios, og Kellogg´s, sem framleiðir Kornflakes. Ástæðan er sú að áhugi á morgunkorni fer einfaldlega minnkandi.

Steinar segir það vera sína tilfinningu að áhugi Íslendinga á sykruðu morgunkorni fari minnkandi en fólk borði þá meira af öðru morgunkorni eins og Weetabix eða venjulegu Cheeriosi. Fólk sjái síðan í gegnum auglýsingaherferðir á vörum eins og Special Kelloggs þar sem látið er líta út fyrir að vörurnar séu sykurlitlar og hollar þó þær séu það í raun ekki.

„Ég hef það á tilfinningunni að Íslendingar séu að átta sig á því að morgunmaturinn leggur grunninn að deginum og ef þú ætlar að vanda þig einhversstaðar þá vandar þú þig í morgunmatnum,“ segir Steinar.  „Það væri gaman að sjá hvort neysla á hafragrauti hefði ekki aukist undanfarið,“ bætir Steinar við. Hann tekur fram að fullyrðingar hans hér að ofan byggi á tilfinningu sem hann fái sem starfandi ráðgjafi en ekki á tiltækri tölfræði.

„Við Íslendingar erum að verða svolítið meðvitaðir um sykurneyslu,“ segir Steinar en bætir því við að fólk mætti vera meðvitaðara um það hversu mikils magn það eigi að neyta.  Þá bendir hann á að fólk þurfi að hafa í huga magn sykurs og trefja í því morgunkorni sem það kaupir. „Ef það er minna en fimm grömm af sykri í 100 grömmum og meira en sex grömm af trefjum þá ætti maður að velja það morgunkorn,“ segir hann. Ef ekki, þá ættu menn að leggja morgunkornið frá sér.

Steinar var einmitt staddur í Bónus þegar Viðskiptablaðið náði tali af honum. Hann sagði að ef hann liti fljótt yfir hilluna með morgunkorninu þá gæti hann trúað því að minnst helmingur morgunkornsins sem hann sæi uppfyllti ekki þessi skilyrði um hlutfall sykurs og trefja.