Kjalarnes ehf. hefur höfðað mál gegn núverandi og fyrrverandi eigendum jarðarinnar Presthúsa og krefst þess að kaupsamningur félagsins um jörðina verði dæmdur gildur. Á umræddri jörð hyggst kaupandi jarðarinnar, félag í eigu Haraldar Þorleifssonar, reisa listamannasetur, tónlistarstúdíó og gallerí.

Umrædd jörð hefur um nokkurt skeið verið á söluskrá en hún var í eigu sex einstaklinga. Vorið 2018 gerði Kjalarnes, sem er í eigu Kristins Gylfa Jónssonar, stundum nefndur í sömu andrá og Brúnegg, kauptilboð í eignina sem var samþykkt. Það féll aftur á móti niður þar sem ekki tókst að mæta fyrirvörum samkvæmt tilboðinu.

Önnur atrenna var gerð sumarið 2019 og samþykktu eigendur jarðarinnar tilboð í júlí það ár. Hljóðaði það upp á 160 milljónir króna sem greiða átti annars vegar með peningum, 50 milljón krónum, og hins vegar með láni fyrir eftirstöðvunum. Frestur til að greiða peningagreiðsluna var upphaflega til 30. september 2019 en var seinna meir, að því fram kemur í stefnu málsins, framlengdur ótímabundið gegn því að á kaupverðið féllu 2% ársvextir þar til greiðsla færi fram.

Erfiðlega hefur gengið að efna samninginn en Kjalarnes fyrirhugaði að selja eignir í sinni eigu til að eiga fyrir kaupverðinu. Þær sölutilraunir höfðu ekki gengið eftir í ársbyrjun, meðal annars þar sem óvissa er uppi um skipulag þeirra.

Í byrjun þessa árs kom í ljós að annar aðili var áhugasamur um jörðina og reiðubúinn að greiða fyrir hana hærra verð. Var þar á ferð félagið Unnarstígur ehf. en það er í eigu frumkvöðulsins Haraldar Þorleifssonar, yfirleitt kenndur við Ueno. Seljendur jarðarinnar riftu því samningnum við Kjalarnes og var hún á endanum seld til Unnarstígs.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Rætt við forsprakka Startup Westfjords en þar er á ferð frumkvöðlahemill en ekki hraðall.
  • Fjallað um afkomu Lyfja og heilsu og afdrif riftunarmála sem tengja samstæðunni.
  • Rætt er við Ægi Má Þórisson, forstjóra Advania á Íslandi, um fyrirhugaðann samruna Advania samstæðunnar og norræna tæknifyrirtækisins Visolit.
  • Stór innflutningsfyrirtæki vilja vita hvort þau sé að finna í skjölum tengdum samkeppnissátt Eimskipa.
  • Fyrsti fasi samrunamáls Völku og Marels rennur sitt skeið von bráðar.
  • Fjallað er um hvaða staðir hafa tekið við flestum ferðagjöfum í sumar, þú þegar helmingur gildistíma nýju ferðagjafarinnar er liðinn.
  • Skúli Malmquist, nýr framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins, segir að golfið hafi bjargað honum á tímum sóttarinnar.
  • Týr fjallar um þættina Handsmaid's Tails og dystópíur og hrafnarnir eru á sinum stað.
  • Farið yfir nýjustu vendingu í deilum um leigumarkaðinn í Berlín.