Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra telur ekki tímabært að ríkið komi með beinum hætti að lausn kjaraviðræðna á almennum vinnumarkaði. Aðilar vinnumarkaðarins verði fyrst að reyna að skapa traust á milli sinna hópa. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Þorsteinn Víglundsson, telur hins vegar að aðkoma ríkisvaldsins myndi gagnast við að leysa deiluna. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Sigmundur Davíð sagði stjórnvöld fylgjast grannt með stöðunni á vinnumarkaði. Staðan í kjaraviðræðum væri mikið áhyggjuefni og að hún væri komin upp vegna þess að menn skynji að það sé eitthvað til skiptana.

Sigmundur sagði mikilvægt að það skapist traust um að ábatanum af efnahagsbatanum verði skipt á réttlátan hátt. Mikil synd væri að nýta ekki það einstaka tækifæri sem nú væri til að auka kaupmátt á Íslandi. Verðbólga myndi bitna sérstaklega á lágtekjufólki og fólki með millitekjur.