Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, telur fráleitt að viðraðar séu áhyggjur af því hvort auðlegðarskatturinn brjóti í bága við stjórnarskrá. Skatturinn var lagður tímabundið á árið 2009 og rennur hann út um næstu áramót. Þeir sem féllu undir auðlegðarskattinn greiddu hann í fyrsta skipti árið 2010.

Skatthlutfallið við álagningu 2013 var 1,5% af eign á bilinu 75-150 milljónir króna hjá einhleypum og 100-200 milljónir hjá hjónum en 2,0% af eign umfram þessi mörk. Auðlegðarskatt greiddu 5.980 framteljendur vegna síðasta árs eða 3.100 fjölskyldur. Þetta gerði tæpa 5,6 milljarða króna Viðbótarauðlegðarskattur á hlutabréfaeign var lagður á 4.988 gjaldendur og nam hann 3,5 milljörðum.króna

Að minnsta kosti tvö mál eru rekin fyrir dómstólum þar sem undir er m.a. hvort skatturinn brjóti í bága við stjórnarskrá. Í öðru málinu stefnir Guðrún Lárusdóttir , framkvæmdastjóri Stálskipa í Hafnarfirði, ríkinu til endurgreiðslu 35 milljóna króna sem hún hefur greitt í auðlegðarskatt. Þá hefur lögmaðurinn Hróbjartur Jónatansson skrifað um auðlegðarskattinn í Viðskiptablaðinu og hefur hann líkt auðlegðarskattinum við eignaupptöku.

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Steingrím út í auðlegðarskattinn á Alþingi í dag í fyrstu umræðu um tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps næsta árs, m.a. því hver hann teldi mörkin vera á milli skattlagningar og eignarnáms.

Skattur á mikinn auð

Steingrímur svaraði því til að hann geti ekki gefið einhlýtt svar við því hvenær skattlagning sé orðin svo óheyrileg að hún jafngildi eignaupptöku.

„Nú á fólk oft erfitt með að greiða skatta sína. Tekjubrestur eða annað getur orðið til þess. Er það þá eignaupptaka ef það þarf að selja bílinn? Ef skattstofninn er skýr og eðililegra sjónarmiða gætt og allir sæti sömu meðferð og hann lagður á með skýrum lögum frá Alþingi þá tel ég fráleitt að viðra áhyggjur að þetta standi tæpt gagnvart stjórnarskrá. Þetta er skattur á mikinn auð. Ég hef engar áhyggjur af því að hann standist ekki stjórnarskrá. Þetta er mildari skattur en eignaskatturinn sem var hér í áratugaskeið.,“ sagði hann og benti á að á síðastliðnum þremur árum hafi auðlegðarskatturinn skilað töluverðum tekjum í ríkiskassann.