*

mánudagur, 21. september 2020
Innlent 10. maí 2019 15:17

Telur bensínstöðvafækkun bratta

Forstjóra Olís þykir fyrirhuguð áætlun um fækkun bensínstöðva í borginni um helming fyrir árið 2025 vera full brött.

Ritstjórn
Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís.
Eva Björk Ægisdóttir

Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, segir í samtali við Vísi að þrátt fyrir að hafa verið meðvitaður um stefnu Reykjavíkurborgar, hafi fréttir þess efnis að til standi að fækka bensínstöðvum í Reykjavík um helming fyrir árið 2025, komið nokkuð á óvart. Þykir honum fækkunin nokkuð brött.

Jón Ólafur segir að borgin hafi boðað til fundar um þessi mál í janúar síðastliðnum. Á þeim fundi hafi umræðan hins vegar verið á þeim nótum að um væri að ræða þróunina næstu áratugi. „Það var kannski ekki talað við okkur á þeim tíma að um væri að ræða fimm til sex ár. Mér finnst þetta því koma mjög bratt,“ hefur Vísir eftir honum.

Þá veltir Jón Ólafur því fyrir sér hvort borgin sé að huga nógu vel að hagsmunum borgarbúa í þessum efnum. 

„Við erum bílaþjóð og það er gert mikið úr hlut einkabílsins í loftslagsmálunum, sem að mínu viti er full bratt. Ég viðurkenni það; þó svo að við séum öll á sama báti með loftslagsmálin þá finnst mér þetta líka snúast um þjónustustig við borgarbúa og hvað eigi þá að taka við ef það verður ekki áfram greitt aðgengi að eldsneyti,“ segir hann.

Jón Ólafur segir Olís engu að síður vera tilbúið til að taka þátt í orkuskiptum í samgöngum. 

„Við fylgjumst að sjálfsögðu með því sem er að gerast á þessum markaði og erum tilbúin til viðræðna um þetta. Ég tel engu að síður að það hefði verið hyggilegra að að fara hægar í þessu máli,“ segir Jón Ólafur í samtali við Vísi. Hann kveðst bíða spenntur eftir frekari samræðum við Reykjavíkurborg um sýn hennar á þessi mál.