Breski umsýslumaðurinn Guy Hands hefur ákært fjárfestingarbankann Citigroup en Hands keypti tónlistarframleiðandann EMI árið 2007.

Hands og bankamaðurinn sem sá um viðskiptin fyrir Citigroup, Wormsley að nafni, voru eitt sinn vinir. Hands ásakar hann nú um að hafa platað sig til að kaupa EMI með lygum um að aðrir fjárfestar væru áhugasamir um kaup á EMI. Þannig hafi verðið verið keyrt upp.

Í frétt Guardian um málið segir að Womsley sé iðulega kallaður „Worm“ þar sem hann þykir útsmoginn viðskiptamaður.

Mál Hands gegn Citigroup verður tekið fyrir af breskum dómstólum í vikunni.