Forsvarsmenn dótturfyrirtækis útgerðarfyrirtækisins Samherja ætla í dag að leggja fram kæru á hendur Ingveldi Einarsdóttur hæstaréttardómara fyrir brot í opinberu starfi. Brotið snýr að meintum brotum hennar í mars árið 2012 þegar hún sem héraðsdómari veitti Seðlabankanum heimild til húsleitar og haldlagningar gagna hjá Samherja og nokkrum fyrirtækjum í tengslum við rannsókn bankans á meintum brotum á gjaldeyrislögum. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag. Þar segir ennfremur að dómari sem á að halda uppi refsivaldi ríkisins framkvæmir ólöglega leit eða leggur að ólögum hald á skjöl eða aðra muni þá varði það sektum eða fangelsi allt að þremur árum.

Í blaðinu segir að í kærunni er Ingveldur sögð hafa vanrækt að kanna hvort Seðlabankinn yfir höfuð hefði lagaheimild til að ráðast í húsleit. Þá hafi engar upplýsingar, rökstuðningur eða gögn legið fyrir í beiðnum um dótturfyrirtækið sem stendur að kærunni eða ætluð brot þess. Að auki telur fyrirtækið að dómarinn hafi brotið gegn sakamálalögum með því að hafa ekki varðveitt nein fylgiskjöl eða gögn sem lögð voru fram við fyrirtöku málsins.