„Ef lagasetning er ekki nógu vönduð skapa þingmenn sér skaðabótaábyrgð,“ segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. Hún gagnrýndi Árna Pál Árnason, fyrrverandi viðskiptaráðherra, og vinstristjórnina fyrir að hafa samþykkt lög sem kennd eru við Árna Pál frá árslokum 2010 og kveða á um að óheimilt að breyta vöxtum á gengistryggðu láni afturvirkt.

Fram kom í fréttum RÚV í vikunni að Drómi, sem heldur utan um eignir SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans, hyggist rukka um 160 lántakendur um samtals 1,6 milljarða króna vegna gengislána sem hætt hefur verið við að endurreikna.

Til snarpra orðaskipta kom um málið við upphaf þingfundar á Alþingi í dag. Vígdís sagði Samfylkinguna bera fulla ábyrgð á málinu og Dróma ganga hart fram.

„Ég er þingmaður til að verja hagsmuni þjóðarinnar. Því tel ég algjörlega ósásættanlegt að Drómi fari í mál við einstaklinga. Nærtækast sé að fyrirtækið fari í mál við ríkið því Árna Páls-lögin fóru gegn stjórnarskrá og líklega er ríkið skaðabótaskylt,“ sagði hún.