„Við vitum af því að talsverð samþjöppun hefur átt sér stað á aflandskrónumarkaðnum. Það getur stuðlað að strategískri hegðun. Það kann að hafa verið staðan nú,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri um ástæðu þess að Seðlabankinn hafnaði öllum tilboðum í útboðum bankans, svokallaðri fjárfestingarleið Seðlabankans, með krónur og evrur í gær.

Már sagði á vaxtaákvörðunarfundi sem nú stendur yfir í Seðlabankanum að ástæða þess að bankinn hafnaði öllum tilboðum hafi verið sú að of mikið verðbil hafi verið á milli tilboða. Í raun hafi aðeins verið hægt að para einn milljarð króna í útboðunum.

„Aflandskrónueigendur verðleggja stöðuna og krefjast meiri gjaldeyris fyrir krónur en áður. Þeir eru meira en áður út úr synci við aflandskrónumarkaðinn. Þess vegna tökum við þessa ákvörðun,“ sagði Már. Hann lagði engu að síður áherslu á að þátttakan í útboðinu í gær hafi verið góð og að framundan séu þrjú útboð.