Engin innistæða er fyrir því að hækka laun á vinnumarkaði þannig að þau nái jafnstöðu við kaupmátt misserin fyrir efnahagshrunið 2008. Þetta er mat Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, en tilefnið er krafa Félags forstöðumanna ríkisstofnana um að laun þeirra verði leiðrétt um 10-20% m.t.t. vísitöluþróunar til að vega á móti skerðingum eftir hrun, auk hækkana í haust. Hafa Bandalag háskólamanna og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja fylgt í kjölfarið með sambærilegum launakröfum. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.

Þorsteinn vísar til kaupmáttarþróunar. "Það er ljóst að kaupmáttur hefur rýrnað frá því að hann stóð sem hæst á árunum 2007 og 2008 en það er að sami skapi ljóst að við stóðum ekki undir þeim kaupmætti. Við höfðum ekki efni á honum þá og við höfum heldur ekkert efni á því að reyna að endurreisa hann í einni svipan með einhverjum slíkum verðbótum eins og þarna er farið fram á. Það er á hreinu að ef farið yrði í einhverjar slíkar launahækkanir í kjaraviðræðunum sem framundan eru myndi það leiða til verðbólgu. Þá myndum við taka einn snúninginn enn í verðbólgudansi og við þekkjum þann veruleika um áratugaskeið, horft til baka. Hvers kyns hugmyndir um einhvers konar vísitölubindingu launa eða eitthvað þess háttar hafa eingöngu alið af sér verðbólgu í gegnum tíðina. Þess vegna er mikilvægt að við byggjum upp kaupmátt á raunverulegri innistæðu en ekki lofti í launaumslaginu," segir Þorsteinn í samtalið við Morgunblaðið.