Fari svo að kröfuhafar Arion banka og Íslandsbanka selji hluta sína í bönkunum á tiltölulega lágu verði þá ætti ríkið eða stofnanir þess á borð við Seðlabankann að eignast hlutina og tryggja síðan sölu þeirra í opnu og og gagnsæju ferli, s.s. með skráningu á markað. Þetta telur Finnur Sveinbjörnsson, fyrrverandi bankastjóri Nýja Kaupþings, eðlilegra ferli en að selja hlutina lífeyrissjóðum og hópi fjárfesta beint. Hann segir á móti ólíklegt að Fjármálaeftirlitið stöðvi hugsanleg kaup lífeyrissjóða og fleiri á annað hvort Arion banka eða Íslandsbanka.

Ekki heppilegt eignarhald til frambúðar

Finnur var í viðtali í Speglinu í Ríkisútvarpinu (RÚV) síðdegis í dag og spurður út í eignarhald á bönkunum. Þar benti hann m.a. á að eignarhaldið er tiltölulega einfalt: ríkið eigi 13% hlut í Arion banka á móti Kaupskilum, þrotabúi Kaupþings, en 5% hlut í Íslandsbanka á móti þrotabúi Glitnis. Þrotabúin séu svo í eigu samansafns af kröfuhöfum föllnu bankanna.

„Ég held að það sé jákvætt að eignarhaldið breytist. Það er ekki jákvætt að svo stór hluti sé í eigu þrotabúa. Slíkt eignarhald mun aldrei verða til frambúðar,“ sagði Finnur.

Lánasöfn skýra hagnaðinn

Rætt hefur verið um það síðustu daga að fjárfestar, þar á meðal lífeyrissjóðir og einkaaðilar á borð við Skúla Mogensen, hafi borið víurnar í Íslandsbanka. Finnur var m.a. spurður út í hugsanlegt verð á bönkunum í ljósi mikils hagnaðar þeirra.

Finnur benti hins vegar á að erfitt sé að verðleggja eignarhluti í bönkunum út frá hagnaði þeirra til skamms tíma litið. Horfa þurfi til framtíðarhagnaðar þeirra. Hann benti á að hagnaður bankanna eftir hrun hafi einkum skýrst af endurmati á lánasöfnun sem fluttust frá gömlu bankanna yfir til þeirra nýju eftir hrunið auk sölu bankanna á fyrirtækjum sem þeir tóku yfir.