Landsbankinn telur að 20% endurgreiðsla vaxta sé ekki skattskyld, ekki frekar en til dæmis endurgreiðsla tryggingafélaga af tryggingum. Í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir bankinn að það sé þó ekki bankans að ákveða hvort endurgreiðslan sé skattskyld, enda fari bankinn ekki með skattlagningarvald í landinu.

Bankinn endurgreiðir 20% af vaxtagreiðslum til rúmlega 50.000 viðskiptavina, samkvæmt sértækum aðgerðum bankans sem hann kynnti í maí sl. Upphæðin nemur um 4,4 milljörðum.

Samkvæmt breytingum á skattalögum í kjölfar hrunsins er eftirgjöf skulda ekki skattskyld ef skilmálabreytingar eru gerðar á lánum og samið er upp á nýtt, eða ef sýnt þykir að engin greiðslugeta sé til staðar. Samkvæmt svari Landsbankans er skilmálum ekki breytt við endurgreiðslu vaxtanna. Í flestum tilvikum kemur greiðslan til lækkunar höfuðstóls.