„Það er ekkert á fasteignamarkaðnum sem er að koma okkur á óvart,“ segir Regína Bjarnadóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka. „Það hefur verið þrýstingur undanfarið en við sjáum fram á að fasteignamarkaðurinn sé að komast í meira jafnvægi.“ Í markaðspunktum greiningardeildarinnar í fyrradag kom fram að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fylgdist vel með þróun húsnæðisverðs í aðildarríkjum sínum. Í júní hefði hann gefið út viðvörun þess efnis að hrun á fasteignamörkuðum víðs vegar gæti verið í farvatninu ef ekki yrði gripið í taumana. Í því samhengi nefndi sjóðurinn meðal annars Kanada, Noreg, Svíþjóð og Bretland.

Regína segir að miðað við umræðuna hér hefði kannski mátt halda að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði sent Íslendingum viðvörun, en svo hafi ekki verið. Skýringanna sé að leita í því að þó að fasteignir hafi hækkað mikið að nafnvirði hafi raunverðshækkun verið frekar lítil og til dæmis einungis 4% milli áranna 2010 og 2013. Hún bendir á að þó að fasteignaverð hafi hækkað nokkuð í júlí á þessu ári hafi það lækkað þrjá mánuðina þar á undan.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .