Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að hugmyndir fjármálaráðherra um aðhaldsaðgerðir á Landspítalanum njóti hvorki stuðnings Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra né einstakra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Árni Páll spurði því á Alþingi í dag hvernig undirbúningi fjárlagafrumvarpsins hefði verið háttað af hálfu ríkisstjórnarinnar.

„Það er nú þannig að fjárlagafurmvarpið fór í gegnum báða stjórnarflokkana og fékk fínar undirteknir,“ svaraði Bjarni. Hann benti á að nú væri búið að ljúka fyrstu umræðu um frumvarpið og málið væri komið á forræði þingsins.

Bjarni þverneitaði því að verið væri að skera niður framlög til Landspítalans. „Það breytir því ekki að það er uppi alvarleg staða þar,“ sagði Bjarni og þingmenn væru sammála um að betur þyrfti að gera þar.

Árni Páll var ekki sáttur við svörin og spurði hvernig fjármálaráðherrann ætlaði að mæta efasemdamönnum úr eigin þingflokki.