Össur Skarphéðinsson, alþingismaður og fyrrverandi utanríkisráðherra, telur ástæðuna fyrir því að Ísland er ekki á meðal ríkja sem Rússland bannar innflutning á matvælum vera góð samskipti Íslands við Rússland vegna málefni Norðurslóða. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV í dag. Rússar lýstu því yfir nýlega að þeir hafa bannað innflutning á matvælum frá völdum ríkjum, m.a. Bandaríkjunum, ríkjum Evrópusambandsins og Noregi en athygli hefur verið vakin á því að Ísland er ekki á þeim lista.

Össur segir í samtali við RÚV að hann telji engar líkur á að Ísland sé ekki á listanum vegna yfirsjónar yfirvalda í Rússlandi. Telur hann viðleitni Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands til að efla samskipti ríkjanna vegna málefna Norðurslóða eiga lykilþátt í því að Ísland sé ekki á listanum. Össur bætir því við að hann telur mikilvægt að Ísland reyni ekki að notfæra sér stöðuna með einhverjum hætti með því að koma í staðinn fyrir þjóðir sem tímabundið eru á lista yfir lönd sem innflutningsbannið nær til.