Helga Árnadóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að mikilvægara væri að einfalda virðisaukaskattkerfið í ferðaþjónustu heldur en að hækka virðisaukaskatt í geiranum.

Eins og VB.is greindi frá vill Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hækka skatt á hótel- og gistiþjónustu og afnema undanþágur í ferðaþjónustunni frá greiðslu virðisaukaskatts. Hann segir að ekki sé hægt að réttlæta að undanþágur frá virðisaukaskatti í ferðaþjónustu, á sama tíma og hækka eigi matarskatt. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, tekur í sama streng.

Helga bendir á að Ísland sé í harðri samkeppni við önnur lönd sem áfangastaður og að stíga þurfi því varlega til jarðar í skattahækkunum, sé vilji til að auka áfram vöxt ferðaþjónustunnar. Hún segir að íslensk fyrirtæki í ferðaþjónustu greiði oft hærri virðisaukaskatt en gengur og gerist í helstu samkeppnislöndum.

Einnig bendir hún á að ef virðisaukaskatturinn yrði hækkaður úr 7 í 14 prósent, yrði enn erfiðara fyrir þá sem eru í ábyrgum rekstri að keppa við þá mörgu sem stunda svarta atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu.