Haft er eftir Gunnari R. Jónssyni, formanni samninganefndar flugvirkja, á mbl.is að afstaða Icelandair í verkfallsdeilunni lykti svolítið af því að fyrirtæki stóli á að lög verði sett á verkfall flugvirkja. Að Icelandair hafi ekki sýnt fram á mikinn samningsvilja í fundarhöldunum í gær.

Þá segist Gunnar jafnframt hafa átt von á að deilan myndi taka enda í gær þegar ríkissáttasemjari lagði fram óformlega sáttatillögu. Flugvirkjar hafi verið tilbúnir að ganga að tillögunni en Icelandair hafi hafnað henni.

Samkvæmt Gunnari hefur ekki verið boðað til nýs fundar milli viðsemjenda í deilunni.

Uppfært: Síðan fréttin var skrifuð hefur verið boðað til samningafundar klukkan 16:00.