Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, segir að nú standi yfir undirbúningur fyrir verkfallsaðgerðir hjá stéttarfélaginu. „Við komum vonandi til með að fara í það strax eftir helgi að auglýsa hvenær við hefjum atkvæðagreiðslu og með hvaða hætti við förum inn í verkföll,“ segir hún. Um 30.000 félagsmenn eru í VR. Spurð að því hver staðan sé í viðræðum VR og SA segir Ólafía: „Í rauninni er staðan þannig að SA hefur ekkert viljað ræða kröfugerðina okkar. Kröfugerðin er bara eins árs samningur, sem við köllum leiðréttingarsamning.“

Ólafía segir að SA vilji frekar leggja fram heildarsamning, en neiti að nálgast VR út frá þeirri kröfugerð sem stéttarfélagið hefur lagt fram. Hún tekur hins vegar fram að nokkuð betur hafi náðst saman hvað varðar starfsmenntamál en launakröfur. Ólafía segir að kröfur VR snúi að því að meðalhækkun launa nemi 24.000 kr. á mánuði og stuðst verði við launaþróunartryggingu að hámarki kr. 50.000 miðað við fullt starf.

Spurð að því hvort það yrði félagsmönnum VR til hagsbóta ef fallist yrði á kröfur félagsins segir Ólafía: „Nú ert þú að spyrja mig út frá VR og ekki heildarvinnumarkaðnum. Ef ég svara þér út frá VR myndi þetta ekki ógna stöðugleikanum, þessi eins árs samningur sem við erum að leggja fram. Kostnaðarauki atvinnulífsins ef gengið yrði að kröfum VR er í kringum 6,9 milljarða eða 5,35% að okkar mati. Við erum eingöngu að tala um krónutöluhækkanir. Krónutölurnar vega þyngst fyrir þá sem eru á lægstu laununum en fara svo stiglækkandi eftir því sem ofar dregur.“

Hvað varðar kjarasamninga almennt segir hún: „Það er náttúrulega alveg klárt að ef að samningar fara hér fram úr hófi, sem kallar á aukna verðbólgu, þá náttúrulega hefur það ekki góð áhrif á einn eða neinn. Það vita það allir. En það er mikil ábyrgð tekin með okkar kröfugerð, og ef þú tekur hana út eina og sér þá ógnar hún ekki neinum verðstöðugleika.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .