Nú nýlega var greint frá því að Síminn hefði tryggt sér sýningarréttinn á ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu frá og með næsta tímabili. Stöð 2 Sport hefur haft sýningarréttinn á leikjum deildarinnar óslitið í rúman áratug, eða frá árinu 2007. Enski boltinn er afar vinsæll meðal Íslendinga og því ljóst að sýningarrétturinn hefur verið einn af lykilhlekkjum í starfsemi Stöðvar 2 Sport í gegnum tíðina. Spurður hvort hann hafi áhyggjur af því að þetta muni valda því að viðskiptavinir segi upp áskrift sinni og færi sig annað, segir Stefán Sigurðsson, forstjóri Sýnar, að Sýn hafi boðið mjög vel í réttinn og fyrirtækið telji sig þekkja þann bransa sem um ræðir nokkuð vel. En niðurstaðan hafi orðið sú að Síminn fékk réttinn. Það sem eftir standi sé hins vegar mikill hluti útsendinga og áhorfs Stöðvar 2 Sports.

„Við erum með ótrúlega breiða sportstöð og við höfum talað um hana sem bestu sportstöð í heimi þar sem á henni er hægt að nálgast flestar íþróttir sem skipta Íslendinga máli á einum stað. Þetta hefur gert það að verkum að það eru margir dýrir sjónvarpsréttir á sama stað sem hefur leitt til þess að verðið á vörunni hefur verið hærra en allir leyfa sér. Við erum búin að ganga frá öllum öðrum réttum til næstu ára þannig að við teljum okkur áfram vera með sterka vöru. Við hefðum auðvitað viljað hafa enska boltann með en maður verður líka að geta gefið svona hluti eftir ef maður telur ekki viðskiptalegt vit í því að bjóða hærra. Það er skemmtilegt að tala við fólk hér á vinnustaðnum sem vann hér þegar það gerðist síðast að við misstum sýningarréttinn á enska boltanum, það er engin svartsýni í því fólki. Fyrirtækinu gekk ágætlega þau ár og þegar maður er með starfsþátt sem er í eðli sínu þannig að það er útboð á þriggja ára fresti þá er ekki hægt að láta alla starfsemina standa og falla með þeim þætti og að þú verðir að tryggja þér þann rétt, sama hvað hann kostar. Þá er búið að gera of mikið af áhættu fyrirtækisins háða ákvörðunum einhverra annarra.

Við erum áfram með meistaradeildina, þjóðardeildina, spænsku og ítölsku deildina í knattspyrnu, íslenska knattspyrnu, körfubolta og handbolta til að nefna nokkra rétti sem við höfum á okkar snærum og eigum þar af leiðandi tryggan viðskiptavinahóp. Þetta er hins vegar líklegt, miðað við hvað rétturinn hækkaði, að verðið á enska boltanum til viðskiptavina muni hækka. Við höfum reyndar verið að lækka vöruna vegna þess að ef þessi vara er of dýr þá freistast fólk til að nýta aðrar leiðir til þess að nálgast efnið og það er líka vandinn við það að borga of mikið fyrir þessa sjónvarpsrétti. Ef hann er of dýru verði keyptur þá þarf væntanlega að láta það endurspeglast í verðinu og þá kaupa færri vöruna af þér. Við sjáum það á þeim íþróttum sem við erum með áfram, að það er mikill meirihluti af áhorfi stöðvarinnar, sem hlýtur að endurspegla ágætlega áhuga fólks á efninu."

Viðtalið við Stefán í heild sinni má nálgast í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .