Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri ráðgjafafyrirtækisins Analytica, telur að hagkerfið kunni jafnvel að hafa skroppið saman í fyrra.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar var hagvöxtur 1,6% í fyrra, en greiningaraðilar höfðu spáð allt að 3,1% hagvexti.

„Þegar öll kurl eru komin til grafar kann hagvöxtur að hafa verið neikvæður í fyrra,“ segir Yngvi í samtali við Morgunblaðið. „Þetta er bráðabirgðauppgjör hjá Hagstofu Íslands og það getur tekið nokkur ár að koma í ljós hver hinn raunverulegi hagvöxtur var 2012. Það tekur tíma að safna gögnum og vinna úr upplýsingum.“ Hann segist telja allt að helmingslíkur á því að hagvöxtur hafi verið neikvæður í fyrra.

„Undirstaða kaupmáttar er framleiðni og þegar kaupmáttur vex umfram framleiðni þá leitar sá kostnaður sér farvegs í verðbólgu. Útlitið er því ekki sérlega bjart hvað verðbólguna varðar,“ segir Yngvi sem telur að undangengnir kjarasamningar hafi reynst verðbólgusamningar.