Andri Árnason, lögmaður Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, telur ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, ekki hafa ákvörðun á mál Geirs fyrir dómstólnum. Mannréttindadómstóllinn hefur vísað máli Baldurs frá dómi .

Andri bendir á að málin séu gjörólík enda málsástæðurnar ekki þær sömu.

„Þeir ætla allavega að taka mál Geirs til skoðunar,“ segir Andri og bætir við að mál Baldurs hafi ekki náð svo langt.

Þegar lögmaður Baldurs vísaði máli hans til Mannréttindadómstólsins vorið 2012 voru talin upp fimm atriði sem þar sem talið var að réttur Baldurs til réttlátrar málsmeðferðar hafi ekki verið virtur. Meðal annars er talið að brotið hafi verið gegn rétti hans til að þurfa að sæta ekki endurtekinni málsmeðferð vegna refsiverðrar háttsemi og að brotið hafi verið á rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar þar sem hann hafi veri sakfelldur fyrir annað en hann var ákærður fyrir.

Geir taldi að í landsdómsmálinu gegn sér hafi íslenska ríkið brotið gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu er lúta að réttlátri málsmeðferð fyrir dómi og reglu um enga refsingu án laga. Málinu var vísað til Mannréttindadómstólsins í október árið 2012. Mannréttindadómstóllinn óskaði eftir svörum frá íslenskum stjórnvöldum við spurningum um mál Geirs í nóvember í fyrra . Stjórnvöld hafa frest fram að 6. mars næstkomandi til að veita svörin ásamt greinargerð og enskri þýðingu á niðurstöðu Landsdóms í málinu gegn Geir ásamt öðrum ákvörðunum eða niðurstöðum tengdum málinu.