„Þetta þýðir það að stuttu lánin, til dæmis bílalánin þar sem þú varst að greiða mjög hratt inn á höfuðstólinn að það er mjög líklegt að mjög margir séu búnir að greiða þau niður, ef ekki ofgreiða þau,“ segir Skarphéðinn Pétursson lögmaður hjá Veritas lögmönnum og lögmaður Borgarbyggðar sem vann mál gegn Arion banka í Hæstarétti fyrr í dag.

Ef þetta reynist rétt þá gætu fjölmargir einstaklinga átt rétt á endurgreiðslum vegna ólögmætra gengislána sem þeir hafa tekið. Samkvæmt Skarphéðni þýðir dómur Hæstaréttar frá því í dag að samningsvextir á ólögmætum gengislánum skuli standa ef skuldari hafi staðið í skilum auk þess sem lækka eigi lánin áður en þau eru vaxtareiknuð.

Hæstiréttur féllst á aðalkröfu Borgarbyggðar í málinu en skuld sveitarfélagsins stendur nú í um 128 milljónum króna. Áður en Borgarbyggð stefndi bankanum stóð skuldin í 359 milljónum þar sem það var reiknað eins og lánið væri lögmætt gengistryggt lán. Eftir að stefnt var viðurkenndi bankinn samkvæmt Skarphéðni að lánið væri ólögmætt gengistryggt lán og fór fram á að það yrði reiknað samkvæmt hinum svokölluðu Árna Páls lögum. Hæstiréttur taldi að slíkir útreikningar, sem væru afturvirkir, stæðust ekki stjórnarskrá. Samkvæmt dóminum stendur því lánið í 128 milljónum króna.