Hagfræðiprófessorinn Øystein Nordeng telur að Norðmenn geti hagnast á myntsamstarfi við Ísland. ,,Það eru okkar hagsmunir í Noregi að stöðugleiki komist á á Íslandi. Myntsamstarf er það besta sem við getum boðið til að það geti orðið," sagði Nordeng í samtali við Klassekampen.

Hann bætti því við að það væri mikilvægt til að styrkja alþjóðlega stöðu Noregs að efla tengslin við Ísland. Sérstakleg skipti það miklu máli varðandi yfirráðin á norðurskautinu og til að hafa aðgang að náttúruauðlindum Barnetshafs.

,,Þegar ESB og Rússar standa í biðröð eftir því að fá að bjarga Íslandi er nauðsynlegt fyrir Norðmenn að átta sig á því að það getur verið nauðsynlegt að huga að okkar eigin stöðu í framtíðinni. Að koma á stöðugleika á Íslandi í gegnum norskt-íslenskt myntsamstarf getur verið mjög ákjósanlegur kostur."

Øystein Nordeng segir að lausnin geti falist í því að Íslendingar taki upp norska krónu en haldi sjálfstæði sínu og seðlabanka. Um leið fái norska fjármálaeftirlitið forræði mála á Íslandi.

Samkvæmt frétt blaðsins hefur Jan Tore Klovland, hjá norska verslunarháskólanum, margt við þetta að athuga og líkir málinu við það að synda um með stein bundinn við fótinn.