Þetta hlýtur að vera einhvers konar met, að sögn Björns Þorvaldssonar saksóknara en fjórmenningarnir sem sérstakur saksóknari hefur ákært í Al Thani-málinu svokallaða gera tíu frávísunarkröfur í málinu.

Fyrirtaka í málinu stendur enn yfir. Fyrir hádegishlé báru lögmenn ákærðra í málinu fram frávísunarkröfur sínar. Eftir hádegishlé flutti saksóknari mál sitt. Hann fór m.a. yfir frávísunarkröfur fjórmenninganna. Flutningur hans stendur enn yfir.

Þar á meðal segja þeir Sigurður Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, og Hreiðar Már Sigurðsson, kröfu um frávísun málsins á þeim forsendum að umfjöllun fjölmiðla um málið hafi verið óvægin.

Saksóknari benti hins vegar á, að í dómi Hæstaréttar yfir Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, hafi ekki verið fallist á óvægna fjölmiðlaumfjöllun sem áhrifavald í málinu.

„Menn í ábyrgðastöðum verða að þola óvægna fjölmiðlaumfjöllun,“ sagði saksóknari.