„Miðaverðið á svona hátíð er trúlega of lágt í dag. Raunverulegt miðaverð miðað við listamennina sem við erum með ætti að vera svona 23 til 24 þúsund krónur í alþjóðlegu samhengi,“ segir Björn Steinbekk, framkvæmdastjóri og tónleikahaldari Sónar-hátíðarinnar í Reykjavík

Björn segir í samtali við Viðskiptablaðið markaðinn hér þó ekki gera ráð fyrir miðaverði á borð við 24 þúsund krónur. Sóknarfærin liggi í að fá fleiri erlenda gesti á hátíðina.

Stórir listamenn á minni sviðum

„Við stefnum á að auka fjölda erlendra gesta með hverri hátíð, sem ég er sannfærður að muni takast eftir því sem hátíðin festir sig í sessi og markaðssetning hennar verður öflugri. Þar liggja færi í að hækka miðaverð, enda munum við halda áfram að bjóða upp á dagskrá sem er á heimsmælikvarða við einstakar aðstæður í Reykjavík,“ segir Björn en í ár lítur út fyrir að um 1.000 erlendir ferðamenn muni koma á hátíðina.

„Stefnan er sett á að fá 1.500 erlenda gesti á hátíðina á næsta ári. Til að geta það þá þurfum við að halda vel á spilunum í markaðssetningu og mótun hátíðarinnar, enda erum við ekki að leita eftir að bjóða erlendum gestum upp á ódýrt miðaverð. Þvert á móti viljum við hafa kost á að selja frekar dýra miða, en bjóða á móti upp á einstaka lífsreynslu sem þú færð ekki annars staðar. Liður í því er að bjóða fólki að sjá stóra listamenn á minni sviðum, sem skapar ákveðna nánd og stemmingu fyrir tónleikagesti. Það er eitthvað sem markar sérstöðu Sónar Reykjavík í alþjóðlegri samkeppni.“

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .