*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 25. júní 2016 14:15

Telur MS hafa sofið á verðinum

Hálfdán Óskarsson rekur mjólkurvinnsluna Örnu í samkeppni við MS sem ekki þarf að hlíta samkeppnislögum.

Höskuldur Marselíusarson
Haraldur Guðjónsson

Hálfdán Óskarsson, framkvæmdastjóri mjólkurvinnslunnar Örnu í Bolungarvík, segir vaxtarmöguleikana fyrir lítið fyrirtæki eins og sitt vera mikla, en Arna framleiðir eingöngu laktósafríar vörur. Hann segir Mjólkursamsöluna hafa gert mistök með offramleiðslu á mjólk og sofið á verðinum með því að að lögverja ekki skyr sem íslenskt að uppruna.

„Ég held bara að Mjólkursamsalan, sem hefur náttúrulega verið eini framleiðandinn, hafi bara einhvern veginn sofið á verðinum. Það er eins og með fetaost, það má ekki framleiða hann undir nafninu feti, því það er lögvarið, þó það megi kalla hann íslenskan feta. Sama á við um ýmsar tegundir, og það hefði örugglega verið hægt með skyrið, en núna er komin hefð á að allir eru að framleiða skyr. Maður veit að aðrir eru að gera þetta, og þeir hjá MS hefðu eflaust getað gert það því það var enginn
að framleiða skyr nema við Íslendingar,“ segir Hálfdán, sem segist ekki hafa trú á að búvörusamningarnir fari í gegn óbreyttir:

„Með þessum nýja samningi getur Mjólkursamsalan ákveðið alla hluti, það verður engin verðlagsnefnd eða neitt svona apparat, það verður bara Mjólkursamsalan sem ákveður verð á mjólk til okkar. Svo eru þeir áfram óháðir samkeppnislögum sem er voða erfitt, því ef þeir myndu ákveða að fara á fullt í framleiðslu á laktósafríum vörum getum við náttúrulega ekki keppt við það. Þeir gætu bara ákveðið að setja upp hálfan prís, ef þeir vilja, því það er ekkert sem bannar þeim það.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.