Niðurstaða dómstóls Evrópusambandsins um að einstaklingum er heimilt að kaupa áskrift að ensku úrvalsdeildinni af aðila utan heimalands mun sjálfsagt hafa áhrif hér eins og annarsstaðar að einhverju marki, segir Ari Edwald forstjóri 365. 365 á sýningarréttinn að ensku úrvalsdeildinni hér á landi. Ari telur þó ekki að dómurinn feli í sér miklar breytingar frá því sem nú er. Fyrirtæki verði áfram að hafa réttindi til þess að sýna frá leikjum. „Þannig að einhver mun áfram hafa réttin hér til að senda út," segir hann.

Samkvæmt niðurstöðu dómstólsins er einstaklingum leyfilegt að kaupa áskriftir af sjónvarpsstöð í öðru landi í gegnum gervihnött. Kráareigandi í Portsmouth höfðaði mál og krafðist þess að vera leyft að sýna frá leikjum í gegnum gríska sjónvarpsstöð en ekki frá útsendingum BskyB, sem keypti sjónvarpsréttinn að ensku úrvalsdeildinni fyrir rúmlega milljarð punda. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að einstaklingum er heimilt að kaupa áskrift frá hvaða stöð sem er innan sambandsins, bann við innflutningi, sölu eða notkun á erlendum sjónvarpsmóttökurum brjóti á frelsi manna til útvega og sækjast eftir þjónustu. Breski miðillinn Guardian segir að niðurstaðan geti haft mikil áhrif á kaup og sölu sýningarétta að íþróttaviðburðum og öðru sjónvarpsefni.

Ari segir ljóst að þegar í dag sé sýnt frá enska boltanum hérlendis frá öðrum stöðvum en íþróttarásum 365, t.d. frá Sky sjónvarpsstöðinni, þó stöðin teljist ekki hafa rétt til að sjónvarpa hér á landi. „En okkar samkeppnisstaða er ekki slæm gagnvart þessum aðilum. Í krónum talið er áskriftin á lægra verði hjá okkur, þó við sýnum fleiri leiki. Margir sjónvarpsáhorfendur meta það einnig að hafa íslenskan þul og skýringaþætti á íslensku. Þannig að þetta er auðvitað bara samkeppni eins og gerist," segir Ari í samtali við Viðskiptablaðið.

Ari telur því að niðurstaða dómstólsins hafi ekki sérstaklega róttæka breytingu í för með sér á næstu árum, þó þróunin verði einhver. „En það mun þá væntanlega hafa einhver áhrif á það verð sem einstakar sjónvarpsstöðvar í samkeppni eru tilbúnar að greiða fyrir réttinn," segir hann.