Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að ný skýrsla OECD sýni margar jákvæðar niðurstöður fyrir Ísland. Hann vekur athygli á því að stofnunin bendir, að hans mati, á kosti þess að gerast fullgildir aðilar að evrusvæðinu. Í pistli sínum á heimasíðu Viðreisnar , skrifar ráðherrann, að óstöðugt gengi krónunnar og sveiflur hennar upp og niður á undanförnum árum hafa haft alvarlegt áhrif á hag heimila hér undanfarna áratugi.

Hann telur mikla styrkingu krónunnar ógn við útflutningsgreinar eins og sjávarútveg og ferðaþjónustu, sem og greinar sem keppa við innflutning. „Myntráð er aðferð til þess að halda gengi krónunnar stöðugu. Viðreisn benti á þessa leið sem hefur reynst mörgum Evrópuþjóðum (og Hong Kong) vel, en hún er ekki trúaratriði ef aðrar leiðir finnast. Auðveldara er að koma henni í gegn meðan margir vilja nota krónu, eins og Danir gera, þó að danska krónan sé beintengd evrunni,“ skrifar Benedikt.

Vænlegast að nota evruna

Sjálfur telur Benedikt að vænlegast sé til lengri tíma litið að nota evruna í viðskiptum hér á Íslandi. Það vakti athygli ráðherra að OECD væri sama sinnin í nýrri skýrslu um efnahagsmál á Íslandi. Í skýrslunni er talið upp ýmsa erfiðleika í bindingu krónunnar við erlenda mynt, erfiðleika sem að fjármálaráðherra telur að Íslendingar geti yfirstigið. „Það sem hefur ekki vakið verðuga athygli að í framhaldinu talar stofnunin fyrir kostum þess að taka upp evruna sem hluta af myntsamstarfi,“ skrifar Benedikt og vísar svo í skýrsluna:

„Ef landið gengi í stærra myntsamstarf sem hluta af tvíhliða samningi fæli það í sér stofnanaramma og stuðning. Endurnýjaður pólitískur vilji til þess að ganga í Evrópusambandið myndi þess vegna breyta myndinni, þar sem það myndi á endanum leiða til þátttöku í evrusvæðinu. Þá myndi Ísland njóta trúverðugleika peningastefnu evrusvæðisins sem hefði áhrif til stöðugleika og gæti lækkað vexti.“

Að lokum skrifar fjármálaráðherra það „mikilvægt að þessi óháða stofnun bendir á kosti þess fyrir Ísland að ná fullri aðild að Evrópusamstarfinu. Oft tökum við Íslendingar nefnilega meira mark á útlendingum en löndum okkar,“ skrifar hann að lokum.