„Það er erfitt að segja hvað gerist við fleytingu krónunnar en það er líka spurning með hvaða hætti það verður gert. Ég tel frekar ólíklegt að hún verði sett óhindrað á flot og fjármagnsflutningar gerðir algerlega frjálsir á einu bretti,"  segir Bjarni Már Gylfason hagfræðingur Samtaka iðnaðarins í samtali við Viðskiptablaðið.

„Það er ekki óhugsandi að þetta verði gert með svipuðum hætti og gert verður í Úkrarínu, sem einmitt hefur nýlega fengið lán og aðra aðstoð frá Alþjóða gjaldeyrissjóðum. Þar verður gjaldmiðlum fleytt en það verður stýrt flot með vikmörkum auk þess sem verðbólgumarkmið verður sett í bið á meðan unnið er í að endurbyggja trúverðugleika peningastefnunnar. Ég gæti trúað því að þetta verði gert með svipuðum hætti hér", segir Bjarni Már.

„Þrátt fyrir að það virðist vera verulegt fjármagn sem vilji leita úr landi við flot krónunnar eru líka vísbendingar þess efnis að hún gæti styrkst. Í fyrsta lagi er raungengi krónunnar mjög lágt og það mun til lengri tíma litið leiðréttast, annaðhvort með styrkingu á nafngengi krónunnar eða með aukinni verðbólgu. Aukinn vöruútflutningur og bættur vöruskiptajöfnuður mun vonandi stuðla að hinu fyrrnefnda.

Í öðru lagi erum við að landa fyrirgreiðslu hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og öðrum lánasamningum sem hlýtur að fela í sér nokkurt traust á efnahagslífið sem að öðru óbreyttu ætti að styrkja krónuna. Í þriðja lagi gætu þau pólitísku umskipti sem átt hafa sér stað síðustu daga varðandi aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru haft veruleg áhrif. Ef markaðurinn trúir því að við ætlum okkur inn í Evrópusambandið og skipta út krónu fyrir evru í fyllingu tímans gæti það haft áhrif strax og dregið úr fjármagnsflótta. Við eigum mikið undir því að gengi krónunnar veikist ekki meira en orðið er og nú reynir sannarlega á undirliggjandi styrkleika hagkerfisins", segir Bjarni Már.