„Kannski er íslenzka olíuævintýrið búið áður en það byrjar?“ spyr Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins í grein á vef Evrópuvaktarinnar . Í greininni vitnar hann til þess að í nýrri skýrslu Citigroup segi að olíiðnaðurinn á heimsvísu sé ekki vaxtarbroddur heldur hnignandi atvinnugrein. Olíufélögin hafi skuldsett sig út á viðskiptastefnu sem er á undanhaldi vegna mikilla tæknilegra framfara.

Þá hefur Styrmir upp úr skýrslu Citigroup að olíuiðnaðurinn sé umkringdur vegna þess að gas sé hægt að fá á lágu verði, ökutæki orðin sparneytnari og ótrúlegra framfarir hafi orðið í virkjun sólarorku.

„Þetta þýði að olíunotkun fari minnkandi á næstu árum og áratugum og þar með séu forsendur brostnar fyrir gífurlegri skuldsetningu olíufyrirtækja til að geta leitað að og unnið olíu á erfiðum stöðum,“ skrifar hann og telur það kunna að verða lítið tilefni til að kljást við ísjakana á Norðurslóðum.