„Þegar öllu er á botninn hvolft þá þurftum við einfaldlega að fá manneskju sem getur leyst verkefnið vel af hendi, landi og þjóð til heilla. Einhverja sem við getum öll treyst, sem að Sjálfstæðismenn og landsmenn geta treyst til verksins. Ég tel að með því að leggja Ólöfu Nordal til að þá séum við að uppfylla öll þessi skilyrði," segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við RÚV.

Bjarni fundaði með þingflokki Sjálfstæðisflokks í Valhöll í morgun, þar sem hann lagði til að Ólöf Nordal tæki við innanríkisráðuneyti af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem sagði af sér sem innanríkisráðherra þann 21. nóvember síðastliðinn. Tillagan var samþykkt.

Óvíst hvort hún sitji allt kjörtímabilið

Ólöf mun halda á ríkisráðsfund á Bessastöðum klukkan 13. Að fundinum loknum mun hún fara í innanríkisráðuneyti til að taka við lyklum að ráðuneytinu.

Í samtali við RÚV vildi Bjarni ekki fullyrða að Ólöf myndi gegna embætti innanríkisráðherra út kjörtímabilið. „Við erum ekki að taka ákvörðun um framtíðina nema nú kemur hún inn í innanríkisráðuneytið," segir Bjarni.