Ríkisendurskoðun hefur lokið við könnun á bókhaldi og reikningum Þorláksbúðarfélagsins fyrir árið 2008 til 2011 og telur ekki tilefni til athugasemda við það. Á hinn bóginn telur Ríkisendurskoðun óvissu ríkja um núverandi fjárhagsstöðu félagsins og því hvenær byggingu Þorláksbúðar við Skálholt muni ljúka.

Fram kemur í uppgjöri Þorláksbúðarfélagsins að tekjur námu 13,4 milljónum króna á árunum 2008 til 2011. Hæsta framlagið hafi komið úr ríkissjóði, 9,4 milljónir króna. Framlög frá kirkjuráði námu þremur milljónum króna. Á móti námu gjöld 16 milljónum króna. Skuldir félagsins í lok síðasta árs námu 2,3 milljónum króna.

Þorláksbúðarfélagið hefur síðustu misserin unnið að því að endurreisa svokallaða Þorláksbúð í sögulegum stíl í Skálholti. Í forsvari fyrir félagið eru séra Egill Hallgrímsson, prestur í Skálholti, og Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Áttu ekki fyrir bókhaldsgerð

Í bréfi sem Ríkisendurskoðun sendi forseta Alþingis um málið í gær er tíundað að dráttur hafi verið á því að félagið skilaði uppgjöri. Fram kemur í bréfinu að formaður stjórnar Þorláksbúðarfélagsins hafi upplýst að bókhald hafi ekki verið fært vegna fjárskorts en að unnið væri að uppsetningu reikninga.

Bent er á það í bréfinu að samkvæmt lögum um bókhald sé Þorláksbúðarfélagið bókhaldsskylt og skuli það semja ársreikning fyrir hvert reikningsár innan sex mánaða frá lokum þess. Ríkisendurskoðun gagnrýnir að það hafi ekki verið gert og bendir á nauðsyn þess að þeir sem taki ákvarðanir um að veita ríkisstyrki hafi lagaskylduna í huga, ekki síst þegar veittir séu styrkir öðru sinni til sama aðila.

Bréf Ríkisendurskoðunar