Birgitta Jónsdóttir, einn stofnenda Pírata og fyrrverandi þingmaður flokksins, segir flokkinn ekki höfða sérstaklega til sín í dag, frekar en aðrir flokkar á þingi. Flokkurinn hafi villst af leið og erfitt sé að sjá muninn á Pírötum og Samfylkingunni. Þetta kom fram í máli Birgittu í Silfrinu í dag.

„Þau áherslumál sem Píratar lögðu upp með upprunalega eru komin mjög aftarlega á forgangslistann. Píratar höfðu mikla sérstöðu, með mikla áherslu á lýðræði á stafrænum tímum og var eini flokkurinn sem hafði nægjanlega mikla tækniþekkingu til að skilja hvað lagasetning gæti haft mikil áhrif, án þess að fólk væri meðvitað um það, á okkar borgaralegu réttindi. Þeir eru með fullt af góðum málefnum en ég er ekki að tengja við neinn af þessum flokkum,“ sagði Birgitta þó það ætti kannski eftir að breytast þegar styttist í kosningar. Píratar svipuðu orðið mjög til Samfylkingarinnar að sögn Birgittu.

Átök innan Pírata síðustu ár

Birgitta sat á þingi fyrir Pírata árin 2013 til 2017 en hún var fyrst kjörin á þing árið 2009 fyrir Borgarahreyfinguna. Hún sagði sig úr Pírötum árið 2018. Þá höfðu verið talsverðar deilur innan Pírata um nokkurra ára skeið. Leitað var til vinnustaðasálfræðings árið 2016 vegna samskiptavanda í þingflokknum sem Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður flokksins, lýsti sem ofbeldissambandi og ákvað að gefa ekki kost á sér fyrir Alþingiskosningarnar árið 2016.

Birgitta sagði við afsögn sína úr flokknum árið 2018 sér hefði verið boðið heiðurssæti fyrir þingkosningarnar 2017 en það boð hafi verið afturkallað. Hún væri ósátt við að Píratar vildu ekki nýta sér þekkingu hennar og reynslu.

Árið 2019 má svo segja að aftur hafi soðið upp úr þegar upptaka af fundi Pírata var birt þar sem Birgitta sóttist eftir að taka sæti í trúnaðarráð flokksins. Á upptökunni má heyra Helga Hrafn gagnrýna Birgittu harðlega. „Ég fékk smá í magann við að heyra það að Birgittu Jónsdóttur hafi verið ýtt úr flokknum. Nei, Birgitta Jónsdóttir fékk bara ekki að ráða til tilbreytingar. Og þegar Birgitta Jónsdóttir fær ekki að ráða þá upplifir hún ekki höfnun heldur árás og hún svarar því þannig," sagði Helgi Hrafn samkvæmt frétt Vísis á sínum tíma.

Breytingar framundan hjá Pírötum

Talsverðra breytinga er að vænta hjá þingflokki Pírata eftir Alþingiskosningarnar í september. Helgi Hrafn, Smári McCarthy og Jón Þór Ólafsson hafa allir gefið út að þeir muni ekki gefa kost á sér. Nú stendur yfir rafrænt prófkjör Pírata sem lýkur þann 13. mars.